Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Jæja þá!

Síðasta færslan hjá mér var 30. mars svo að það má segja að ég skuldi svolítið. Veiðin hófst hjá mér í apríl og ég fór við annan mann (VeiðiEið sjálfan) í Hólaá sem rennur á milli Laugarvatn og Apavatns. Við hrepptum allar tegundir af veðri og einnig nokkra urriða. Þessi ferð var nokkru betri en vorferðin mín í Hólaá í fyrra því við fengum fiska á fleiri stöðum og það má líklega segja að stór hluti árinnar sé mjög veiðilegur. Einnig er gaman að segja frá því að ný fluga frá mér gerði góða hluti þarna og gaf Eiður henni nafnið Rimmugýgur (beygist eins og Hildur). Hér er smá myndband frá túrnum:

Næsti túr var 4. maí í Grímsá til þess að veiða sjóbirting. Við fórum tveir saman og hvorugur komið þarna áður. Við komum við í íburðarlitlu (NOT!) veiðihúsinu og kíktum í bókina eins og veiðimanna er siður og sáum hvaða staðir Halda áfram að lesa »

ASB

Anti-static bag

Anti-static bag

ASB er skammstöfun á anti-static bag. Það eru pokarnir sem notaðir eru utan um ýmsa rafmagnshluti sem eru viðkvæmir fyrir stöðurafmagni t.d. íhluti í tölvur og fleira. Þessir pokar eru líka prýðilegt hnýtingaefni og gefa skemmtilegt útlit sem búkefni í púpur. Reyndar eru þeir mis-þykkir og ekki sami litur á þeim öllum þannig að það verður hver að finna út hvað honum líkar best í þessu. Svo getur verið vandasamt verk að skera þá niður í passlega mjóar ræmur (ég nota reglustiku og skurðlæknablað). Verst að mér hefur ekki tekist með mínum takmörkuðu ljósmyndagræjum og hæfileikum að ná almennilega á filmu hvernig þetta efni kemur út en hér eru nokkrar flugur sem ég var að dunda mér við að hnýta úr þessu:

 

 

Frost í lykkjum

Frost á fróni

Frost á fróni

Einn af fylgifiskum þess að veiða á Íslandi á vorin og haustin (reyndar stundum líka á sumrin) er að það getur frosið vatn í lykkjunum á stönginni. Þetta gerir veiðimönnum erfitt fyrir og getur á tíðum orðið leiðigjarnt. Ég hef heyrt ýmis ráð við þessu, t.d. að nota WD-40 á lykkjurnar. Nú eða bóna þær með bílabóni. Ég er nú ekki sérstaklega hrifinn af því að vera að sletta einhverjum svona iðnaðarefnum á græjurnar mínar og hef jafnvel heyrt að sterk efni eins og WD-40 geti skemmt línur (sel það þó ekki dýrara en ég keypti). Sumir hafa líka notað varasalva til að bera á lykkjurnar með ágætis árangri. En eitt ráð hef ég heyrt sem mér

Gott í fleira en matinn

Gott í fleira en matinn

hugnast öðrum fremur og það er að nota matreiðsluspreyið PAM á lykkjurnar til að hrinda frá vatninu. Þá er bara spreyjað á lykkjurnar, ekki borið á með tusku og og PAM-ið sér um að halda vatninu úr lykkjunum auk þess að skemma ekki húðina á línum. Svo er náttúrulega hægt að nota það líka til að steikja aflann að loknni veiðiferð. Nú og svo eru til efni sem koma frá veiðigræjuframleiðendum sem eru marðkaðsett í einmitt þessum tilgangi, t.d. Stanley´s ice off paste frá Loon en ég fæ meira kikk út úr því að nota svona heimilis „remedíur“ 🙂

SkulliMig langar að fjalla svolítið um hinar svokölluðu „Evrópsku veiðiaðferðir“ . Þær eru kenndar við Tékkland, Pólland, Frakkland og Spán. Þessar aðferðir hafa að mínu viti lítið verið stundaðar við silungsveiðar hér á landi en full ástæða er að telja að þær virki alveg jafn vel hér og annarstaðar í heiminun. Aðferðirnar eru keimlíkar en henta misvel við mismunandi aðstæður. Þær krefjast þess að veiðimaður fari varlega þar sem hann þarf að vera í töluverðu návígi við bráðina og að fluguveiðibúnaðinum sé beitt á allt öðruvísi hátt en vanalegt er. Ég hef aðeins prófað svona veiðiskap og komst að því að „veiðanlegum“ stöðum fjölgaði töluvert við það að hafa þessi trix í pokahorninu.

Tékkneska aðferðin (Czech nymphing)

Chironomid

Chironomid með tungsten kúlu – góð í tékknesku aðferðina

Tékkneska aðferðin við veiðar með púpum í straumvatni kom fram fyrir sjónir almennings um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Þessi aðferð er þróuð úr frá pólsku aðferðinni og er mjög lík henni. Báðar byggja þær á að veitt er mjög nálægt stönginni, svo til undir stangartoppinum. Flugulínan sjálf rétt stendur út úr stangarendanum, um eitt fet eða svo og snertir aldrei vatnið. Veitt er með tveimur eða þremur púpum og eru þær mis þungar. Þessi aðferð hefur marg sannað sig sem ein sú veiðnasta sem til er til að veiða silung í straumvatni.

Búnaður:
Flugustöng í línuþyngdum 3 – 6 er ákjósanlegt tól í þessa veiðiaðferð og eru léttari stangir betri til að þreyta veiðimanninn ekki um of. Stöngin má helst ekki vera styttri en Halda áfram að lesa »

Samantekt 2013

SkulliJæja þá er komið nýtt ár og rétt að gera upp það gamla. Ég hef ekki veitt jafn lítið eins og sumarið 2013 síðan ég tók upp þráðinn aftur í veiðinni fyrir nokkrum árum síðan. Fiskarnir sem ég skráði á veidibok.is eru ekki nema 25 samtals en rétt er að taka fram að ekki rötuðu allir veiddir fiskar í bókina. Undanfarin ár hef ég farið í nokkra fasta túra sem ég varð að sleppa síðasta sumar vegna þess að ég var að bjóða frumburðinn velkominn í heiminn en þeir koma aftur inn í ár. En ég fór á nokkra nýja staði í sumar og langar aftur á þá alla utan einn (Gufuá í Borgarfirði er bara ekki að gera sig fyrir mig). Elliðavatn er sá staður sem ég sótti hvað fastast í sumar en ég hafði ekki veitt þar áður. Vatnið kom mér skemmtilega á óvart, sérstaklega hvað varðar stærðina á fiski en ég fékk mína stærstu fiska þar í sumar. Það voru nokkrir urriðar á bilinu 50 – 60 cm.  Einnig heimsótti ég Arnarvatnsheiðina (norðan megin) snemma sumars í fyrsta skipti og var mjög hrifinn af því veiðisvæði. Hólaá er líka staður sem ég hef hug á að gera að föstum pósti í vorveiðinni. Í lok sumars ákvað ég síðan að ganga til liðs við veiðifélagið Ármenn og er að skoða hvaða möguleika það býður manni upp á næsta sumar.  En nú er að ganga í garð tími fluguhnýtinga og ég vona að það lifni aðeins yfir blogginu mínu vegna þess og svo er ég með greinarstúfa í smíðum um veiðiaðferðir sem eru kannski ekki mjög þekktar á Íslandi. Gleðilegt nýtt veiðiár og sjáumst á bakkanum í sumar!
Kveðja
Siggi Kr.

Jóla-hvað?

Þar sem jólin nálgast nú óðfluga og ég var í sérstaklega miklu jólaskapi í kvöld ákvað ég að henda í nokkra buzzera með svolitlu jólaþema. Ætli það væri ekki best að veiða þessa saman á línu – svona eins og jólaseríu 🙂

Svört Snappy Poodle

Svört Snappy Poodle

Í mynd sinni um straumflugveiðar notar Oliver Edwards nokkrar tegundir flugna til að ginna fiskana til töku. Ég hef aðeins rætt um eina þeirra, Big Eyed Bugger hérna áður og nú langar mig að spjalla aðeins um fluguna Snappy Poodle sem kemur líka fyrir í myndinni. Snappy Poodle er fluga að mínu skapi því að í henni er marabou, hellingur af marabou! Svo er hún líka framþung og með augu. Hvernig getur þetta klikkað spyr maður bara. Ég var í bölvuðum vandræðum með að finna rétta efnið í búkinn á henni en hann er döbbaður úr löngum gerfiþráðum og svo tættur út og greiddur aftur. Ég fann ágætis efni í hann á Flybox sem heitir Fly-brite og pantaði það. Ég nota Fish-Skull í hausinn í stað haussins sem Edwards notar en finnst það ekki koma að sök. Og svo er hellingur af marabou. Þetta er semsagt svolítið efnisfrek fluga og því ekki úr vegi að lakka vel og gera hana extra sterka. Rauði punkturinn á hálsinum er svo bara tússaður á döbbið í lokin. Það má auðvitað gera hana í fleiri litum en svarta og ég held að ólífugræn og hvít væru ekki svo vitlausar. Hún mun allavega fara í boxið mitt í nokkrum litum. Fluguna á myndinni hnýtti ég á streameröngul #6 en ég held að flugan komi betur út á #4 eða jafnvel #2.

SkulliJæja, þá er komið að því að fara að halda áfram að skrifa eitthvað hérna eftir töluvert hlé. Það hefur lítið verið að gerast í veiðiferðum og hnýtingum hjá mér síðan í lok júlí vegna þess að þá tók ég uppá því að eignast frumburðinn og hef komist að því að það getur verið svolítið tímafrekt viðfangsefni :).  En maður hefur fundið smá tíma hér og þar til að sinna hobbíinu. Eitt af því sem ég gerði var Halda áfram að lesa »

Super Tinsel

Super Tinsel

Ég verð að segja að mér brá pínulítið í brún þegar ég barði þessa flugu augum í fyrsta sinn og mér varð að orði að þetta væri ekkert nema létt útgáfa að silfruðum Toby. Sem er að vissu leyti rétt ef horft er til litana í henni. En því er ekki að neita að Super tinsel er firnasterk fluga og sérstaklega í urriðan að vori. Hún er venjulega ekki hnýtt þyngd sem býður upp á að nota hana á því dýpi sem hentar hverju sinni og hún er létt í kasti. Í útgáfurnar sem ég hnýti nota ég silfurlitað döbbefni í væng sem ég greiði svo aftur með bursta. Búkurinn er úr silfur tinseli og skeggið úr rauðu Senyo´s laser dub (rautt dub með glitþráðum í). Svo er hefðbundnari útgáfan með haus úr svörtu döbbi en hin útgáfan mín með svörtum marabou undirvæng í staðinn. Flugan er einföld og fljótleg í hnýtingu og allir ættu að eiga nokkrar svona í boxinu.

Super Tinsel með marabou undirvæng

Super Tinsel með marabou undirvæng

 

Þráðlaus Bözzer

bozzer_web2Manni finnst það ekki alveg hljóma rétt að þessi fluga hafi verið „hnýtt“ enda kom hvergi nálægt henni þráður né hnútur. Það sem ég nota í þessa er eftirfarandi: Svartur vír, Zap-a-gap lím, UV lakk og tilheyrandi ljós, rauður og svartur túss og að lokum Hard-as-nails naglaherðir. Mér finnst rauði tússinn koma sérstaklega vel út í flugunni og á klárlega eftir að fara og ná mér í fleiri liti til að prufa í svipuðum flugum. Nauðsynlegt er að lakka að lokum yfir UV lakkið því það verður alltaf smá klístruð húð á því eftir herðingu. Gott er að nota til þess þunnt flugulakk eða efnið sem ég nota, Hard-as-nails en það fæst í Hagkaupi